Stjórnendateymi
Stjórn ÍsKos
Í stjórnendateymi ÍsKos sitja Eva H. Önnudóttir, Ólafur Þ. Harðarson, Agnar Freyr Helgason, Hulda Þórisdóttir og Jón Gunnar Ólafsson.
Hægt er að hafa samband við stjórnendateymi ÍsKos í gegnum netfangið icenes@hi.is.
Eva H. Önnudóttir
Eva H. Önnudóttir hefur veitt ÍsKos forstöðu frá árinu 2016. Eva er prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Mannheim árið 2015. Helstu rannsóknaáherslur hennar eru á sviði kosningahegðunar, stjórnmálaflokka og stjórnmálaelíta, kosninga og framkvæmd lýðræðis. Hún hefur birt greinar í tímaritum eins og Party Politics, Representation, West-European Politics, Icelandic Review of Politics & Administration and Scandinavian Political Studies, og er fyrsti höfundar bókarinnar Electoral Politics in Crisis After the Great Recession (2021).
Ólafur Þ. Harðarson
Ólafur Þ. Harðarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, þar sem hann hóf kennslu og fræðastörf 1980. Hann var forseti Félagsvísindadeildar og síðar Félagsvísindasviðs HÍ 2001-2013. Ólafur lauk doktorsprófi frá London School of Economics and Political Science. Hann stofnaði Íslensku kosningarannsóknina 1983 og sá nær einn um framkvæmd rannsóknarinnar fram til ársins 2013. Bók hans Parties and Voters in Iceland (1995) er fyrsta heillega fræðilega greiningin á íslenskri kosningahegðun. Ólafur er einn höfunda The Nordic Voter: Myths of Exceptionalism (2014) og Electoral Politics in Crisis after the Great Recession: Change, Fluctuations and Stability in Iceland (2021). Hann hefur skrifað fjölmarga bókarkafla og greinar í ritrýnd fræðitímarit. Ólafur hefur verið kosninga- og stjórnmálaskýrandi Ríkissjónvarpsins síðan 1986.
Agnar Freyr Helgason
Agnar Freyr Helgason er dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi frá The Ohio State University í Bandaríkjunum árið 2015. Agnar stundar rannsóknir á viðhorfum og kosningahegðun almennings, en hefur jafnframt fjallað um stjórnmál skatta- og velferðarmála, áhrif efnahagshrunsins 2008 á lífskjör almennings, kosningakerfi og megindlega aðferðafræði í rannsóknum sínum. Agnar er einn höfunda Electoral Politics in Crisis after the Great Recession: Change, Fluctuations and Stability in Iceland (2021).
Hulda Þórisdóttir
Hulda Þórisdóttir er prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í félagslegri sálfræði frá New York University og starfaði að því loknu í tvö ár sem nýdoktor við Princeton háskóla. Hún gekk til liðs við Stjórnmálafræðideild HÍ árið 2009. Árin 2018-2020 var Hulda í leyfi frá HÍ og var dósent við sálfræðideild NYU í Abu Dhabi. Rannsóknir Huldu eru á sviði stjórnmálasálfræði. Hún hefur einkum rannsakað hvernig hugmyndafræði mótar og mótast af ýmsum sálfræðilegum þáttum. Hulda hefur sérstakan áhuga á því hvernig ógn og ótti (raunveruleg eða tilbúin) hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir. Hulda er einn höfunda Electoral Politics in Crisis after the Great Recession: Change, Fluctuations and Stability in Iceland (2021).
Jón Gunnar Ólafsson
Jón Gunnar Ólafsson er lektor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi í fjölmiðlafræði árið 2019 frá Goldsmiths, University of London. Doktorsrannsóknin hans fjallaði um miðlun stjórnmálaupplýsinga í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum og var styrkt af Economic and Social Research Council í Bretlandi. Jón Gunnar hefur tekið þátt í fjölda alþjóðlegra rannsóknaverkefna um fjölmiðla og stjórnmál, þar á meðal the Media for Democracy Monitor og the Worlds of Journalism Study. Rannsóknir hans hafa verið gefnar út í alþjóðlegum tímaritum eins og Journal of European Public Policy og Nordicom Review. Jón Gunnar kom inn í stjórn ÍsKos árið 2021 og heldur hann utan um fjölmiðlahluta rannsóknarinnar.