Kjósendakönnun
Um kjósendakönnun ÍsKos
Íslenska kosningarannsóknin (ÍsKos) var fyrst framkvæmd árið 1983 þegar spurningakönnun var lögð fyrir kjósendur eftir Alþingiskosningarnar það ár. Síðan þá hefur könnunin verið gerð eftir hverjar Alþingiskosningar.
Gögn kjósendakönnunarinnar eru aðgengileg í opnum aðgangi á vef GAGNÍS.
Aðferðafræði
Könnunin hefur að langmestu leyti verið lögð fyrir sem símakönnun. Í könnuninni árið 1983 voru þó notaðar þrjár aðferðir: 2/3 svara kom úr símakönnun, 1/3 úr heimsóknakönnun og fáein svör úr póstkönnun meðal þeirra sem höfðu sveitasíma. Jafnframt fékk hluti úrtaksins árið 2021 styttri útgáfu af könnuninni senda með tölvupósti.
Spurningarnar sem lagðar hafa verið fyrir svarendur eru til dæmis um stjórnmálaþátttöku, afstöðu til lýðræðis og mikilvægra mála á dagskrá stjórnmála, afstöðu til stjórnmálaflokka eða framboðslista, kosningabaráttuna og bakgrunn svarenda. Gætt hefur verið samræmis í spurningum á milli ára og kjósendahluti ÍsKos myndar þannig gagnagrunn byggðan á lengstu tímaröð spurningakannana sem til er innan félagsvísinda á Íslandi.
Könnunin meðal kjósenda eftir kosningar er hluti af CSES (Comparative Studies of Electoral Systems) sem er alþjóðlegt samstarfsverkefni um kosningarannsóknir þar sem lagðar eru fyrir sömu spurningar í þeim ríkjum sem eru hluti af CSES.
Persónuvernd
Kjósendakönnun Íslensku kosningarannsóknarinnar er unnin í samræmi við fyrirmæli Persónuverndar um meðferð persónuupplýsinga. Þátttakendum er ekki skylt að svara einstökum spurningum eða listanum í heild. Þátttakendur getur dregið það samþykki til baka hvenær sem er á meðan gagnaöflun stendur með því að hafa samband við Félagsvísindastofnun.
Úrtak Íslensku kosningarannsóknarinnar er sótt í Þjóðskrá en viðbótarupplýsingar eru sóttar í stjórnsýslugögn frá Hagstofu Íslands. Stjórnsýslugögn fela í sér upplýsingar um til dæmis menntunarstöðu, tekjutíundir og talningarsvæði. Stjórnsýslugögn verða ekki samkeyrð við svör í könnuninni, en eru notuð til að útbúa brottfallsvog til að leiðrétta fyrir ólíka svörun milli samfélagshópa.
Þátttaka í Kjósendakönnun Íslensku kosningarannsóknarinnar er trúnaðarmál og Félagsvísindastofnun gætir þess að ekki sé hægt að rekja svör til einstaklinga. Að lokinni gagnaöflun vegna Kjósendakönnunar Íslensku kosningarannsóknarinnar er persónueinkennum eytt til að tryggja nafnleysi og gögnin sett í opinn aðgang á vef GAGNÍS auk þess sem hluti gagnanna er settur í gagnagrunn alþjóðlega samstarfsverkefnisins Comparative Study of Electoral Systems.
Kjósendakannanir ÍsKos
Ár | Úrtaksstærð | Svarhlutfall (%) | Gögn |
---|---|---|---|
1983 | 1,268 | 79.1 | |
1987 | 2,306 | 75.7 | |
1991 | 2,000 | 75.0 | |
1995 | 2,326 | 74.0 | |
1999 | 2,251 | 72.5 | |
2003 | 2,249 | 64.3 | |
2007 | 2,493 | 64.0 | |
2009 | 2,586 | 53.6 | |
2013 | 2,495 | 59.3 | |
2016 | 2,557 | 50.7 | |
2017 | 3,923 | 52.8 | |
2021 |
6,000 | 36.2 | |
2024 | Gögnin verða gerð aðgengileg eftir að gagnaöflun og frágangi þeirra er lokið. |