Saga ÍsKos

Image
Um heimtur Íslensku Kosningarannsóknarinnar árið 1983.

Ólafur Þ. Harðarson, nú prófessor emeritus í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands , vann frumkvöðlastarf í íslenskum félagsvísindum þegar hann ýtti úr vör ÍsKos árið 1983 og hefur hún verið framkvæmd eftir hverjar Alþingiskosningar síðan þá. Hér verður farið stuttlega yfir sögu og framgang ÍsKos í gegnum árin.

 

Upphaf ÍsKos 

Haustið 1979 hóf Ólafur doktorsnám við London School of Economics and Political Science eftir að hafa lokið þar M.Sc. prófi. Viðfangsefnið var kjósendur og flokkar á Íslandi og stefnt að því að framkvæma fyrstu kosningarannsóknina á Íslandi. Ólafur hóf kennslu og rannsóknir við Háskóla Íslands í janúar 1980 og stjórnaði rannsókninni þaðan.

Veturinn 1982-83 hönnuðu Ólafur og Gunnar Helgi Kristinsson fyrstu rannsóknina, sem var framkvæmd eftir Alþingiskosningarnar 1983. Áður hafði Ólafur leitað ráða hjá Henry Valen, stofnanda norsku kosningarannsóknarinnar, Bo Särlvik, sem stofnaði sænsku kosningarannsóknirnar og hafði unnið að þeim bresku, og Ivor Crewe, sem hafði stjórnað bresku kosningarannsóknunum. Frá upphafi var mikil áhersla lögð á alþjóðlegan samanburð.

Gunnar og Ólafur sáu sjálfir um alla framkvæmd rannsóknarinnar 1983. Höfuðstöðvar voru á skrifstofu Ólafs á Skólabrú 2, en þar hafði stjórnmálafræðin í HÍ aðsetur. Þeir réðu spyrla, sömdu spurningalista, létu velja slembiúrtak kjósenda úr þjóðskrá og stjórnuðu gagnasöfnun frá degi til dags. Fyrsta rannsóknin notaðist bæði við símakönnun og viðtöl augliti til auglitis (fáeinir svarendur með sveitasíma svöruðu í pósti).

Vísindasjóður fjármagnaði rannsóknina 1983 að mestu, en auk þess veittu Öryggismálanefnd og NORDSAM (Nordiska samarbetskommitén för internationell politik, inklusive konflikt- och fredsforskning) fé til hennar. Fyrstu niðurstöður voru birtar 1984 og fjölluðu um afstöðu Íslendinga til alþjóða- og öryggismála, m.a. afstöðuna til NATO og herstöðvar Bandaríkjamanna í Keflavík. Þær niðurstöður vöktu mikla athygli og voru rækilega ræddar í íslenskum fjölmiðlum.

Texti

 

 

Veturinn 1982-83 hönnuðu Ólafur og Gunnar Helgi Kristinsson fyrstu rannsóknina, sem var framkvæmd eftir Alþingiskosningarnar 1983. Gunnar og Ólafur sáu sjálfir um alla framkvæmd rannsóknarinnar 1983.

 

Frá vinstri: Ólafur Þ. Harðarson og Gunnar Helgi Kristinsson.

Mynd
Image
Mynd af Ólafi Þ. og Gunnari H.

Framgangur ÍsKos 

Frá 1987 hefur Félagsvísindastofnun HÍ séð um gagnaöflun, en Ólafur og Gunnar Helgi sáu áfram um fræðilegan undirbúning og hönnun. Í gegnum tíðina hafa nokkrir nemendur Ólafs starfað sem aðstoðarmenn hans í rannsóknum og komið að ÍsKos, m.a. Sveinn Helgason, Einar Mar Þórðarson og Eva H. Önnudóttir. Eva H. Önnudóttir, sem kom fyrst að ÍsKos árið 2003, tók við sem aðalstjórnandi hennar 2016. Auk Ólafs og Evu eru Agnar Freyr Helgason, Hulda Þórisdóttir og Jón Gunnar Ólafsson nú í stjórn ÍsKos.

Fyrsta rannsóknin notaðist bæði við símakönnun og viðtöl augliti til auglitis. Frá 1987 hafa allar kannanirnar verið í síma, en árið 2021 var völdum þátttakendum boðið að taka þátt í rannsókninni með því að senda þeim könnunina með tölvupósti. Í kosningarannsókninni 1987 var hluti úrtaksins úr hópi svarenda frá 1983, en slíkt panel-snið var einnig notað 2016-17 og 2017-2021.

Image

Frá 1987 hefur ÍsKos notið fjárstuðnings Vísindasjóðs og arftaka hans, RANNÍS (úr Rannsóknasjóði og Innviðasjóði). Kosningarnar haustið 2017 bar að með svo bráðum hætti að ekki var unnt að sækja um styrk til RANNÍS. Þá kom Alþingi til bjargar með fjárframlagi á fjáraukalögum sem tryggði framkvæmd rannsóknarinnar. Auk þessa hefur ÍsKos hlotið minni styrki úr Rannsóknasjóði HÍ.

Framan af var kosningarannsóknin eingöngu í formi könnunar meðal kjósenda eftir kosningar. Síðan þá hafa tveir hlutar bæst við sem eru könnun meðal frambjóðenda stjórnmálaflokka og könnun meðal kjósenda á meðan á kosningabaráttunni stendur (kosningabaráttukönnun).

Árið 2009 var fyrsta frambjóðendakönnunin lögð fyrir alla frambjóðendur (kjörnir eða ekki) þeirra flokka sem kjörnir höfðu verið á þing. Hún hefur verið endurtekin eftir hverjar kosningar síðan þá og varð formlega hluti af ÍsKos árið 2013.

Árið 2016 bættist við spurningakönnun sem lögð er fyrir kjósendur í gegnum stórt úrtak tekið úr Netpanel Félagsvísindastofnunar á meðan á kosningabaráttu stendur. Í henni er greint hvort og hvaða breytingar verða á afstöðu kjósenda til stjórnmálaflokkanna, til málefna og hvaða flokk þeir hyggjast kjósa, ásamt því að fylgjast með hvernig kjósendur fylgjast með kosningabaráttunni.

Árið 1999 varð ÍsKos hluti af alþjóðlega verkefninu CSES (Comparative Study of Electoral Systems) og hefur verið það síðan. Hluti spurninga í ÍsKos eru spurningar frá CSES, sem eru lagðar fyrir á sama hátt í fleiri en 50 löndum og mynda alþjóðlegt gagnasafn. Frekari upplýsingar um alþjóðlegt samstarf má nálgast á síðunni undir flipanum „Um okkur“ í gegnum „Um ÍsKos“.