Um ÍsKos

Markmið ÍsKos 

Kosningarannsóknir eru mikilvægt tæki til að skilja hvernig fulltrúalýðræði virkar í framkvæmd. Í ÍsKos hefur frá upphafi verið lögð áhersla á að greina hvernig flokkshollusta, afstaða kjósenda til mikilvægra mála og félagsleg staða tengist því hvaða flokk fólk kýs. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á að greina afstöðu frambjóðenda og stjórnmálaflokka, ásamt því að varpa ljósi á hvort og hvernig kosningabaráttan hefur áhrif á afstöðu og kosningahegðun kjósenda.

Í ÍsKos hefur meðal annars hefur verið spurt um  mat kjósenda á flokkum og foringjum, hugmyndafræði (m.a. hægri-vinstri) kjósenda og frambjóðenda og afstöðu þeirra til margvíslegra málefna (t.d. skatta, umfangs hins opinbera, velferðarkerfis, utanríkismála, byggðamála og innflytjenda). Þá hefur annars konar stjórnmálaþátttaka en að kjósa verið kortlögð, sem og afstaða og væntingar til lýðræðis, pólitískt traust og fleiri mikilvæg málefni á vettvangi stjórnmála.

Gætt hefur verið samræmis í spurningum á milli ára og að gögn séu sambærileg, líka við kosningarannsóknir í öðrum ríkjum. Kjósendahluti ÍsKos myndar þannig gagnagrunn byggðan á lengstu tímaröð spurningakannana sem til er innan félagsvísinda á Íslandi. Fjöldinn allur af greinum, bókum og bókaköflum eftir innlenda og erlenda fræðimenn hafa byggt á gögnunum, ýmist með íslenskan veruleika í forgrunni eða þar sem íslensku gögnin eru hluti af alþjóðlegum samanburði.

Samsetning rannsóknarinnar

Íslenska kosningarannsóknin (ÍsKos) var fyrst framkvæmd árið 1983 þegar spurningakönnun var lögð fyrir kjósendur eftir Alþingiskosningarnar það ár. Síðan þá hefur könnunin verið gerð eftir hverjar Alþingiskosningar og spannar nú samtals 12 kosningaár. 

Gögnin eru aðgengileg í opnum aðgangi á vef GAGNÍS

Könnun meðal kjósenda á meðan á kosningabaráttunni stendur var fyrst framkvæmd árið 2016 og hefur verið endurtekin eftir hverjar kosningar síðan þá. 

Gögn úr kosningabaráttukönnuninni verða aðgengileg í opnum aðgangi á vef GAGNÍS.

Frambjóðendakönnun ÍsKos hefur verið framkvæmd í kjölfar hverra Alþingiskosninga frá árinu 2009 þar sem könnun er send til allra frambjóðenda sem eru á lista þeirra flokka sem hafa náð kjöri á þing.

Til að nálgast gögnin er hægt að senda tölvupóst á icenes@hi.is og sækja um aðgang. Sé aðgangur veittur þurfa notendur að skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu um meðhöndlun og notkun gagnanna.

Alþjóðleg samstarfsverkefni

ÍsKos hefur í gegnum tíðina tekið þátt í alþjóðlegum samstarfsverkefnum um kosningarannsóknir og ber þar helst að nefna Comparative Studies Of Electoral Systems (CSES), Comparative Candidate Survey (CCS), True European Voters (TEV) og Monitoring Electoral Democracy (MEDem), Nordic Electoral Democracy (NED) og Consortium for National Election Studies (CNES).

CSES, sem er samstarfsvettvangur kosningarannsókna í fleiri en 50 löndum, var stofnað árið 1999 og hefur ÍsKos verið með frá upphafi. Sem hluti af því samstarfi er lagður fyrir spurningalisti frá CSES fyrir kjósendur eftir kosningar sem er sambærilegur á milli þátttökuríkja. Spurningalisti CSES skiptist í tvennt; spurningar sem eru óbreyttar á milli ára og spurningar sem lúta að þema CSES á hverju tímabili. CSES sér um að sameina gögn aðildarríkja í einn gagnagrunn og birtir gögnin í opnum aðgangi á www.cses.org.

CCS er samstarfsvettvangur fyrir frambjóðendakannanir um það bil 30 landa og hefur Ísland verið aðili frá 2009. Með þátttöku í þessu verkefni er lagður fyrir spurningalisti frá CCS fyrir frambjóðendur til þingkosninga sem er sambærilegur á milli aðildarríkja CCS. Eftir að gagnaöflun er lokið í hverju landi eru gögnin send til CCS, sem sér um að sameina gögnin í einn gagnagrunn. Gögnin eru vistuð hjá rannsóknastofnuninni FORS í Sviss þar sem hægt er að sækja um að fá aðgang að gögnum CCS.

TEV var samstarfsvettvangur kosningarannsókna frá 25 ríkjum í Evrópu sem var styrkt af COST (e. European Cooperation in Science & Technology) frá 2009 til 2013. Verkefnið gekk út á að samræma og sameina gögn kosningarannsókna aðildarríkja í einn gagnagrunn. Gagnagrunnurinn, sem spannar kosningarannsóknir allt að frá 1956 til 2013, eru vistuð í hálf-opnum aðgangi hjá þýsku rannsóknstofnuninni GESIS þar sem hægt er að sækja um aðgang að gögnunum.  

MEDem er samstarfsverkefni kosningarannsókna í Evrópu þar sem unnið er að því að koma á fót varanlegum samstarfsvettvangi um kosningarannsóknir í Evrópu. Fyrsti fundur MEDem var haldinn í tengslum við ráðstefnu ECPR á Íslandi árið 2011 og hefur ÍsKos verið þátttakandi í samstarfsneti MEDem frá þeim tíma.

NED (Nordic Elections and Democracy – a research forum) er samráðsvettvangur forráðamanna norrænu kosningarannsóknanna. Lögð er áhersla á samvinnu um nýjungar í aðferðafræði og kenningum – og samræmdar spurningar. Félagar í hópnum skrifuðu fyrstu bókina sem nýtti gögn úr kosningarannsóknum allra landanna, The Nordic Voter: Myths of Exceptionalism (2014). Höfundar voru Åsa Bengtsson, Kasper M. Hansen, Ólafur Þ. Harðarson, Hanne Marthe Narud og Henrik Oskarsson.

Íslenska kosningarannsóknin er aðili að CNES (Consortium for National Election Studies) sem er samstarfs- og samráðsvettvangur um kosningarannsóknir.