Kosningahermir

Kosningahermirinn er hugbúnaður sem gerir kleift að prófa hugmyndir um kjördæmaskipan og kosningakerfi. Hermirinn er hugsaður til prófunar á kosningakerfum eins og í kosningum til þjóðþinga. Notandinn getur hannað sín eigin kerfi, eitt eða fleiri, kannað eiginleika þeirra og borið þau saman með ýmsum gæðamælikvörðum. Þingsætum má skipta að vild milli kjördæma og í kjördæmis- og jöfnunarsæti. Velja má á milli úthlutunarreglna, setja þröskulda bæði í kjördæmum og á landsvísu, en ekki síst prófa margvíslegar útfærslur á útdeilingu jöfnunarsæta til listanna. Gildandi lög um kosningar til Alþingis standa notendum til boða auk ýmissa tilbrigða við þau svo og hugmyndir um ný kerfi. Notandinn getur vistað lýsingu á kosningakerfum þeim sem hann setur saman til síðari notkunar. Herminn má enn fremur nota við könnun á einfaldari kerfum, svo sem við kosningar til sveitarstjórna.